Семинар по вопросам русского языка и культуры в исландской столице в конце августа 2013 г.

Málþing um rússneska tungu og menningu í Reykjavík í ágústlok

Dagana 27. — 30. ágúst nk. verður efnt til málþings í Reykjavík, erindaflutnings og kvikmyndasýninga um viðfangsefnið «Rússneskt mál og menning á Íslandi». Fyrirlestra flytja sérfræðingar á sviði málvísinda og kvikmyndagerðar, bæði íslenskir og rússneskir, en málstofan verður annars opin öllum áhugamönnum, Rússum búsettum hér á landi og Íslendingum sem kunnáttu hafa í rússnesku.

Það er ODRI, vináttufélag Rússlands og Íslands, sem skipuleggur þessa viðburði með tilstyrk sjóðsins «Rússneskur heimur» í Moskvu og í samvinnu við allmarga einstaklinga, félagið MÍR, Menningartengsl Íslands og Rússlands, Háskóla Íslands og rússneska sendiráðið í Reykjavík. Málþingið er einn af nokkrum viðburðum hér á landi og ytra sem til er stofnað í tilefni þess að 70 ár verða í haust liðin frá því formlegt stjórnmálasamband komst á milli Íslands og Rússlands (þá Sovétríkjanna).

Hringborðsumræður
Málþingið hefst með hringborðsumræðum í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105, þriðjudaginn 27. ágúst. «Hringborðið» verður formlega sett kl. 11 árdegis, en síðan verða flutt framsöguerindi og umræður verða í kjölfar þeirra. Erindi flytja Helgi Haraldsson prófessor og höfundur Rússnesk-íslensku orðabókarinnar, dr. Vitalij Kostomarov málvísindamaður og prófessor, Árni Bergmann rithöfundur og þýðandi, dr. Andrej Korovin háskólakennari, Eggert Kristjánsson sem stundað hefur rússneskunám í Moskvu á síðustu misserum, Áslaug Thorlacius myndlistarmaður og þýðandi, Olga Markelova þýðandi, Rebekka Þráinsdóttir aðjúnkt og Jónas Tryggvason framkvæmdastjóri og fyrrum námsmaður í Sovétríkjunum.

Erindi og kvikmyndir
Síðar þennan sama dag, 27. ágúst, og á sama stað, í MÍR-salnum, kynnir Marína Júzhanninova kvikmyndafræðingur «Farandfestival norðursins» og fjallar um efnið «Rússnesk tunga og menning í sovéskum og rússneskum kvikmyndum». Sýnd verður kvikmynd.

Miðvikudaginn 28. ágúst kl. 12 flytur V. Kostomarov prófessor fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni fyrir Íslendinga með kunnáttu í rússnesku og Rússa búsetta á Íslandi. Fyrirlesturinn nefnir prófessorinn «Rússnesk tunga á öndverðri 21. öld».

Júríj P. Salnikov kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi stendur fyrir dagskrá um rússneskar manngerðir í heimildarmyndum um heimskautafara, flugmenn og geimfara og sýnir kvikmyndir máli sínu til skýringar í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105, fimmtudaginn 29. ágúst kl. 18.

Loks verður kvöldstund í Bíó Paradís við Hverfisgötu föstudaginn 30. ágúst kl. 18 um rússneska kvikmyndagerð og rússneska tungu og nýleg kvikmynd sýnd.

Fjöldi þátttakenda við hringborðið er takmarkaður vegna plássleysis, en annars er aðgangur að öllum framantöldum viðburðum ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Áhugamenn um rússneska tungu og menningu eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Добавить комментарий