UM OKKUR

cropped-Logo2.png

Vináttufélag Rússlands og Íslands (ODRI) hefur efnt til nýs heiðursmerkis, Fyrir vináttu og samstarf milli Rússlands og Íslands, í tilefni af 75 ára afmæli stjórnmálasambands milli landanna.

Þann 4. október 2018 voru liðin 75 ár frá því að stofnað var til stjórnmálasambands milli Rússlands og Íslands. Samband þetta hófst á erfiðum tímum þegar heimsstyrjöldin síðari var í algleymingi og Ísland hafði lýst því yfir að konungssambandi við Danmörku yrði slitið. Enda þótt langt sé á milli Rússlands og Íslands hafa löndin jafnan staðið saman þegar mikið hefur legið við og íbúar hvors lands um sig hafa sýnt menningu hins áhuga. Íslenskir sjómenn tóku þátt í Íshafsskipalestum stríðsáranna. Sovétríkin veittu Íslandi stuðning þegar þorskastríðin stóðu yfir og Ísland, lítið eyríki, stóð í deilum við Bretland og barðist fyrir efnahagssjálfstæði sínu. Halldór Kiljan Laxness, sígildur íslenskur rithöfundur, ferðaðist um Sovétríkin. Á Kvikmyndasafni Íslands er stærsta safn rússneskra kvikmynda í heiminum. Íslenskir stúdentar hafa haldið til háskólanáms í Rússlandi allt frá sjötta áratug 20. aldar og rússneskir námsmenn hafa sótt sér háskólamenntun til Reykjavíkur frá því á níunda áratugnum. Sovéskir íþróttaþjálfarar hafa lagt lóð sitt á vogarskálar framfara í íþróttum á Íslandi, en íslenskir knattspyrnumenn leika nú með liðum í rússnesku úrvalsdeildinni. Árið 1950 voru félagasamtökin MÍR stofnuð í Reykjavík, eða félag um menningartengsl Íslands og Rússlands. Árið 2012 varð svo ODRI, Vináttufélag Rússlands og Íslands, til í Moskvu.

Nú á dögum er heimurinn opnari en áður. Nokkuð er um að rússneskir ríkisborgarar búi á Íslandi og eins er Íslendinga að finna meðal íbúa Rússlands. Á afmælisári stjórnmálasambandsins varð það að ráði ODRI-félaga að stofna til sérstaks Vináttu-heiðursmerkis á vegum félagsins og veita það þeim sem hafa lagt hönd á plóg við að efla og þróa einlæg samskipti milli þjóðanna tveggja.

Þessar verðlaunaafhendingar hafa nú þegar farið fram:

— 11. september í Moskvu þegar þess var minnst að 115 ár voru liðin frá fæðingu Míkhaíls Steblín-Kamenskíjs en hann var þekktur sovéskur íslenskufræðingur og heiðursdoktor við Háskóla Íslands;

— 4. október í Moskvu, á kvöldvöku í tilefni af 75 ára afmæli stjórnmálasambands milli landanna tveggja en hún var haldin með stuðningi sendiráðs Íslands í Rússlandi.

Stjórnarmenn ODRI undirbúa nú næstu heiðursmerkisveitingar í Reykjavík:

— 24. október í sendiráði Rússlands á Íslandi;

— 25. október í Háskóla Íslands.

Stjórn ODRI óskar íslenskum Rússlandsvinum til hamingju með 75 ára vináttuafmæli landa okkar og býður til samstarfs!

* * * * * * * * * * * * * * * 

Samfélagslegu samtökin «ODRI», eða Vináttufélag Rússlands og Íslands, eru opin til samstarfs við einstaklinga og stofnanir sem hafa áhuga á uppbyggingu og eflingu vináttutengsla á milli Rússlands og Íslands.

Markmið félagsins snúast um að koma á gagnkvæmum skilningi á milli þjóða okkar, stuðla að samstarfi í ferðamennsku, menningu, menntun, vísindum, orkugeira, iðnaði, náttúruvernd og fjölmiðlum.

Starfsemi ODRI felst í upplýsingagjöf um Ísland og íslenska menningu, sögu, landafræði fyrir rússneska aðila auk þess að vera vettvangur fyrir persónuleg samskipti Rússa og Íslendinga, veita stuðning skapandi verkefnum tengdum Íslandi og ráðgjöf fyrir athafnir viðskiptalegs eðlis.